Erlent

Sendu beint frá ofbeldi gegn fötluðum manni á Facebook

Heimir már Pétursson skrifar
Lögregla í Chicago í Bandaríkjunum hefur yfirheyrt fjögur ungmenni sem grunuð eru um að hafa sent út beint á Facebook þar sem þau gengu í skrokk á andlega veikum manni. Lögregluyfirvöld segja myndbandið sjúklegt en það tengist væntanlega ekki kynþáttaátökum þótt árásarfólkið hafi minnst á Donald Trump verðandi forseta Bandaríkjanna í myndbandinu.

Lögregla í Chicago fékk ábendingu um myndband á Facebook sem var frá beinni útsendingu á síðunni í gær. Þar sést hvar gengið er í skrokk á ungum hvítum manni sem á við andlega erfiðleika að stríða og hrópa þeir eða þau sem ráðast að manninum ýmis ókvæðisorð að honum og minnast á Donald Trump.

Myndbandið var tekið upp í þessu húsi. Lögregla í Chicago hefur yfirheyrt fjögur 18 ára ungmenni, tvo pilta og tvær stúlkur, sem grunur leikur á að hafi staðið að árásinni og útsendingu hennar á Facebook.

„Ég ætla ekki að segja að það hafi gengið fram af mér en þetta var ógeðslegt,“ segir Eddie Johnson yfirlögregluþjónn í Chicago.

Kevin Duffin lögreglufulltrúi segir manninn sem ráðist var á hafa tengsl við árásarhópinn.

„Hann er kunningi eins hinna grunuðu og þeir virðast hafa hist úti í úthverfunum. Hinir grunuðu stálu síðan sendiferðabíl og fluttu hann inn í borgina,“ segir Duffin.

Þótt einn árásarmannanna sem virðist vera svartur hrópi nafn Trumps telur lögreglan árásina hvorki vera af pólitískum né kynþáttalegum rótum.

„Ég held að hluti af því sé bara heimska. Menn rausa bara eitthvað sem þeir halda að komist í fréttir,“ segir Eddie Johnson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×