Íslenski boltinn

Elfar Freyr lánaður til Horsens

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elfar Freyr er á leið aftur í atvinnumennsku.
Elfar Freyr er á leið aftur í atvinnumennsku. vísir/stefán
Elfar Freyr Helgason hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Breiðablik. Við sama tækifæri gengu Breiðablik og Horsens frá samkomulagi um að Elfar færi til danska úrvalsdeildarliðsins á láni.

Elfar verður því samherji Kjartans Henrys Finnbogasonar sem hefur leikið með Horsens frá miðju sumri 2014.

Elfar heldur til Danmerkur um næstu helgi og mun spila með Horsens næstu mánuði. Danska félagið hefur svo forkaupsrétt á Elfari þannig að svo gæti farið að hann spilaði með Horsens næstu árin.

Elfar, sem er 27 ára miðvörður, hefur leikið með Breiðabliki allan sinn feril ef frá eru talin þrjú ár sem hann var í atvinnumennsku. Hann lék með AEK í Aþenu 2011-12, fór þaðan til Stabæk í Noregi og svo til Randers í Danmörku.

Elfar sneri aftur til Breiðabliks á miðju sumri 2013 og hefur leikið með Kópavogsliðinu síðan þá. Elfar hefur alls leikið 115 leiki með Breiðabliki í efstu deild og skorað þrjú mörk. Hann varð bikarmeistari með Blikum 2009 og Íslandsmeistari ári seinna.

Horsens situr í 7. sæti dönsku deildarinnar. Keppni í dönsku deildinni hefst aftur um miðjan febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×