Maðurinn réðst inn á næturklúbbinn Reina klukkan 1:30 að staðartíma, eða klukkan 22:30 á íslenskum tíma á nýársnótt og hóf skothríð á gesti staðarins sem þar voru samankomnir til þess að fagna áramótum.
Sjá einnig: Þau féllu í árás hryðjuverkamannsins í Istanbúl
Að sögn lögregluyfirvalda í borginni hefur lögreglan undir höndum fingraför árásarmannsins og hefur jafnframt birt myndir af honum á netinu. Vonast er til þess að hægt verði að nafngreina hann fljótlega. Sérsveit lögreglunnar hefur gert áhlaup víðsvegar um borgina og notað þyrlu við aðgerðir sínar.
Talið er að hann sé frá Úsbekistan eða Kirgistan en um tveir þriðju af fórnarlömbum hans voru af erlendu bergi brotnir.
Áður hefur komið fram að hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Lögreglan rannsakar nú hvort að maðurinn tengist sama hóp vígamanna og myrti tugi saklausra borgara á Ataturk flugvellinum í Istanbúl síðasta sumar.
Hryðjuverkasamtökin sögðu meðal annars í yfirlýsingu sinni að árásin hefði verið framið af,,hetjulegum hermanni"sínum og sökuðu samtökin Tyrki um að úthella blóði múslíma með loftárásum sínum í Sýrlandi.
Er þetta í fyrsta skipti sem samtökin hafa með beinum hætti lýst yfir ábyrgð sinni á hryðjuverkum í landinu.
Lögreglan vonar að ekki einungis verði hægt að hafa hendur í hári mannsins heldur einnig þeirra sem taldir eru hafa aðstoðað hann.