Erlent

Síðasti blaðamannafundur Obama: „Ég held að þetta verði allt í lagi“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Barack Obama hélt sinn síðasta blaðamannafund sem forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama hélt sinn síðasta blaðamannafund sem forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Barack Obama hélt í gær sinn síðasta blaðamannafund sem forseti Bandaríkjanna. Donald Trump tekur við embætti á morgun en núverandi forseti varaði eftirmann sinn við að hann myndi ekki sitja þegjandi hjá ef grunngildum Bandaríkjanna yrði ógnað undir stjórn Trump.

„Ég held að þetta verði allt í lagi,“ svaraði Obama spurður um væntanlega forsetatíð Trump. „Við þurfum samt að halda áfram að berjast og taka engu sem gefnu.“

Hefð er fyrir því að fyrrverandi forsetar tjái sig sem minnst um störf eftirmanna sinna og sagði Obama að hann myndi halda sig við það að mestu leyti, nema hann yrði vitni að því að „grunngildum“ Bandaríkjanna yrði ógnað.

„Ef ég sé kerfisbundna mismunun verða lögleidda á einhvern hátt, til að mynda ef komið verður í veg fyrir að fólk geti kosið,“ sagði Obama aðspurður um hvað gæti orðið til þess að hann myndi tjá sig um störf Donald Trump sem forseti.

Ljóst er að Trump og Obama eru ekki sammála í fjölmörgum málaflokkum og má þar nefna heilbrigðismál og umhverfismál. Reikna má með að stefna Bandaríkjanna í veigamiklum málaflokkum muni taka stakkaskiptum ef marka má orð Trump. Obama vonast þó til þess að starf forseta muni milda afstöð Trump.

„Þegar hann tekur við embætti mun hann sjá hversu flókið það er í raun og veru að veita öllum heilbrigðisþjónustu eða skapa störf og það gæti fengið hann til þess að komast að sömu niðurstöðum og ég,“ sagði Obama.

Trump mun taka við embætti á morgun við formlega athöfn í Washington. Obama var spurður hvað væri besta ráðið sem hann gæti veitt Trump. Svarið var einfalt, að hlusta á fólkið í kringum sig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×