Erlent

Masharipov segir ISIS-liða hafa fyrirskipað árásina

atli ísleifsson skrifar
Úsbekinn Abdulkadir Masharipov, sem hefur viðurkennt að hafa staðið fyrir árásinni á skemmtistaðinn Reina í Istanbúl á nýársnótt, hefur greint frá því að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS í Sýrlandi hafi skipað sér fyrir.

Tyrkneskir fjölmiðlar greina frá þessu. Hinn 34 ára Masharipov á að hafa sagt frá því að hann hafi komið til Tyrklands í janúar 2016 og varið stærstum hluta síðasta árs í borginni Konya í miðju landsins. Áður á hann að hafa fengið þjálfun hryðjuverkamanna í Afganistan.

Um miðjan desember á hann svo að hafa farið til Istanbúl í þeim tilgangi að leita að hentugum stað til að framkvæma árásina.

Heimildir tyrkneskra fjölmiðla herma að upphaflega hafi staðið til að ráðast á almenna borgara á Taksim-torgi í Istanbúl, en þegar hann sá viðbúnað lögreglu á nýársnótt hafi hann ákveðið að finna annan stað.

Í frétt Aftonbladet um málið segir að Masharipov hafi veirð handtekinn á heimili félaga síns í Istanbúl á mánudagskvöldinu. Þar voru jafnframt maður frá Írak og þrjár konur frá Egyptalandi, Selegal og Sómalíu handteknar.

Fingraför Masharipov fundust á vettvangi árásarinnar en umfangsmikil leit lögreglu að manninum stóð yfir í rúmar tvær vikur.

39 manns fórust í árásinni á Reina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×