Erlent

Trump „taggaði“ ranga Ivönku

Samúel Karl Ólason skrifar
Ivanka og Donald Trump.
Ivanka og Donald Trump. V'isir/AFP
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, varð fyrir því óláni að „tagga“ vitlausa Ivönku á Twitter í nótt. Í stað þess að beina fylgjendum sínum að Twitter aðgangi dóttur sinnar, beindi Trump þeim að aðgangi breskrar konu sem heitir Ivanka Majic.

Hún notaði tækifærið til að svara Trump, biðja hann um að vanda sig á Twitter og kynna sér loftlagsbreytingar betur.

Svo óheppilega vildi til að Trump var að endurtísta öðru tísti, en sá sem hafði upprunalega tíst því hafði ruglað saman „töggum“. Hann, @drgoodspine, hefur nú lokað aðgangi sínum.

Fyrir nokkrum árum lýsti Trump því yfir á Twitter að hann teldi hnattræna hlýnun vera ráðabrugg Kínverja til að gera bandarískan iðnað ósamkeppnishæfan. Svo neitaði hann fyrir að hafa nokkurn tíman sagt það í kappræðum við Hillary Clinton.

Síðan þá hefur hann þó lýst yfir efasemdum um Parísarsamkomulagið og hæðst að hnattrænni hlýnun á Twitter.

Fregnir bárust af því í gær að Trump ætlar að halda áfram að nota sinn eigin Twitter-aðgang eftir að hann tekur við embætti á föstudaginn. Hann muni ekki skipta yfir á @Potus.

Rúmlega 20 milljónir manns fylgjast með aðgangi Trump en hann hefur verið mjög virkur á Twitter um áraraðir. Hann stofnaði aðganginn árið 2009 og síðan þá hefur hann tíst rúmlega 34 þúsund sinnum.

Í viðtali við Sunday Times segir hann ástæðu þess að hann tísti svo mikið vera að fjölmiðlar fjalla um hann á óheiðarlegan hátt og að þeir fjalli alltaf um tístin hans.

„Ég get gert bing bing bing og þeir fjalla um það um leið og ég tísti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×