Erlent

Rússar segjast verða fyrir auknum fjölda tölvuárása

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rússnesk stjórnvöld segjast verða fyrir stöðugt fleiri tölvuárásum.
Rússnesk stjórnvöld segjast verða fyrir stöðugt fleiri tölvuárásum. Vísir/Getty
Rússneskar stofnanir verða fyrir stöðugt fleiri tölvuárásum erlendis frá að sögn eins forsvarsmanna varnarmálaráðuneytisins þar í landi, Nikolai Patrushev. Reuters greinir frá.

Áður hefur komið fram í máli Rússa að þeir séu orðnir leiðir á ásökunum á hendur sínar af hálfu forsvarsmanna leyniþjónustustofnanna í Bandaríkjunum um að rússnesk yfirvöld hafi haldið uppi miklum tölvuárásum á bandarískar stofnanir fyrir forsetakosningarnar þar í landi.

Þá telja jafnframt margir að rússnesk yfirvöld kunni að hafa undir höndum skaðlegar upplýsingar um Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna. Trump, sem og rússnesk yfirvöld hafa þvertekið fyrir það.

Sjá einnig: Frásagnir af gylltum sturtum og kúgunum Rússa nornaveiðar

„Undanfarið höfum við tekið eftir því að tilvikum fjölgar umtalsvert þar sem reynt er að komast inn í gagnagrunna rússneskra stofnana af aðilum sem staðsettir eru erlendir“ segir Patrushev.

Patrushev benti jafnframt á að þær aðferðir sem notaðar eru til tölvuárása væru í stöðugri þróun. Þá kom fram í máli hans að hann vonaðist til þess að Rússland gæti átt í uppbyggilegu samstarfi við Bandaríkin í netöryggismálum.

Aðrar þjóðir hafa einnig bent á að þær verði fyrir æ fleiri tölvuárásum á hverju ári en nýlega kom fram í máli franskra yfirvalda að tölvuárásir á franskar stofnanir hefðu verið um 24 þúsund talsins í fyrra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×