Erlent

Reykjavíkurfundurinn ekki runninn undan rifjum Trump heldur Putin

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin og Donald Trump.
Vladimir Putin og Donald Trump. Vísir/Getty
Tump-liðar hafa þvertekið fyrir að þeir hafi unnið að því að halda fund á milli Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, og Vladmir Putin, forseta Rússlands, hér í Reykjavík. Í forsíðufrétt Sunday Times í dag segir að starfsmenn Trump hafi sagt breskum embættismönnum frá því að fundur Trump og Putin í Reykjavík yrði fyrsta embættisferð Trump.

Nú segir Financial Times frá því að stjórnvöld í Rússlandi hafi verið að íhuga að halda slíkan fund á Íslandi.

„Fyrsti fundurinn ætti ekki að gerast í Rússlandi né í Bandaríkjunum heldur í hlutlausu landi,“ segir rússneskur embættismaður við FT.

„Það mun ekki vera í London, og ekki í Þýskalandi, þar sem bæði ríkin eru óvinveitt Rússlandi. Það getur ekki verið í Frakklandi, þar sem hægt væri að líta á það sem óviðeigandi þar sem að kosningabarátta stendur nú yfir. Hvað með Ísland?“

FT ræddi við tvo rússneska embættismenn sem segja báðir að Reykjavíkurfundur hafi verið til skoðunar þar í landi. Talsmaður Putin hefur þó ekki svarað fyrirspurn blaðamanna. Báðir segja að til standi að halda fundinn fyrir sumarið, en segja að þeir vilja ekki ýta á eftir Trump.

Trump hefur sagt að hann ætli að fara til Bretlands og þá mögulega í febrúar. Embættismennirnir segjast vonast til þess að hægt verði að tengja mögulegan fund í Reykjavík við þá ferð Trump til Evrópu. Annað hvort fyrir ferðina eða eftir hana.

Frétt um að Íslendingar séu tilbúnir til að halda fund Trump og Putin er sú mest lesna hjá rússnesku fréttaveitunni Tass, þegar þetta er skrifað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×