Erlent

Trump sagður vilja hitta Putin í Reykjavík

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin og Donald Trump.
Vladimir Putin og Donald Trump. Vísir/GETTY
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, er sagður vilja funda með Vladimir Putin, forseta Rússlands, hér í Reykjavík. Samband ríkjanna hefur stirðnað að undanförnu og Trump hefur sagt að hann vilji bæta það. Svo virðist sem að Trump vilji endurtaka fund Gorbachev og Reagan í Höfða árið 1986 þegar þeir reyndu að binda enda á kalda stríðið.

Þetta kemur fram í forsíðufrétt Sunday Times í Bretlandi á morgun, en fjölmiðillinn deildi forsíðunni á Twitter nú í kvöld.

Trump sagði í nýlegu viðtali við Wall Street Journal að hann vissi til þess að Rússar vildu halda fund þeirra á milli og að hann væri tilbúinn til að mæta. Miðað við forsíðuna hjá Times hefur teymi Trump sagt breskum embættismönnum að fyrsta embættisferð Donald Trump yrði til funda með Putin.

Samkvæmt frétt Sunday Times vill Trump að fundurinn fari fram á næstu vikum eftir að hann tekur við embætti þann 20. janúar.

Meðal þess sem á að vera til viðræðna er að ríkin dragi úr notkun og framleiðslu kjarnorkuvopna.

Vert er að benda á að Trump er fjórði forseti Bandaríkjanna sem hefur það markmið að bæta samskiptin við Putin, en það virðist aldrei hafa gengið eftir. 

Bill ClintonGeorge WBush og Barack Obama settu sér allir sama markmið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×