Innlent

Jón segir samgöngumálin mjög brýn

Snærós Sindradóttir skrifar
Jón Gunnarsson horfir hlýjum augum á stólinn sem hann mun verma.
Jón Gunnarsson horfir hlýjum augum á stólinn sem hann mun verma. vísir/vilhelm
Fréttablaðið náði tali af þeim sem nú taka við ráðherraembætti og spurði þau sömu fimm spurninganna. Jón Gunnarsson er nýr samgöngu- og sveitarstjórnamálaráðherra.

Hvert verður þitt fyrsta verk?

Það verður að setjast niður með fólkinu í ráðuneytinu og fara yfir verkefnin sem bíða mín. Við þurfum að forgangsraða verkefnum. Ég tek við góðu búi á þessum bæ hjá Ólöfu Nordal, vinkonu minni. Hún er búin að setja mörg stór mál í ákveðinn farveg sem ég er mjög sáttur við og mun fylgja þeim áfram á þessum vettvangi.

Hvað gerði forveri þinn vel í starfi?

Flest, ef ekki allt.

Hvað hefði betur mátt fara hjá forvera þínum?

Ekkert sem ég man sérstaklega eftir.

Hvaða verkefni verður fyrirferðarmest í þínu ráðuneyti á kjörtímabilinu?

Þau eru fjölmörg. Þetta er víðfeðmt ráðuneyti og við höfum öll upplifað það hvernig umræðan er um stöðuna í samgöngumálum okkar. Það hlýtur að vera eitt brýnasta verkefnið í ríkisstjórn að halda áfram á þeirri braut sem er byrjað að varða núna. Það er verið að auka fjármagn inn í þennan mikilvæga málaflokk og hér bíða okkar ærin verkefni. Þetta kemur inn á mótun stefnu varðandi ferðaþjónustuna og við munum vinna það samhliða með þeim.

Sóttist þú sérstaklega eftir þessu ráðuneyti?

Nei, ég sóttist ekki sérstaklega eftir því. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×