Erlent

Strax orðin hænd hvort að öðru

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
May og Trump með brjóstmynd af Winston Churchill.
May og Trump með brjóstmynd af Winston Churchill. Nordicphotos/AFP
„Samband okkar er nú þegar orðið gott,“ sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundi með Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir fund þeirra.

Trump tók í sama streng og sagði hið sérstaka samband ríkjanna hafa sett mark sitt á söguna með því að stuðla að friði og réttlæti.

May sagði fundinn hafa einkennst af einurð og hreinskilni, aðspurð um ummæli Trumps um pyntingar og fóstureyðingar.

Þá lýstu þau því yfir að viðræður um fríverslunarsamning á milli ríkjanna væru hafnar. „Ég er viss um að slíkur samningur er báðum ríkjum í hag,“ sagði May.

Leiðtogarnir sögðust sammála um nauðsyn þess að vinna bug á hryðjuverkasamtökunum ISIS.

Trump neitaði að staðfesta að slakað yrði á viðskiptaþvingunum gegn Rússum. May sagði mikilvægt að halda þeim við þar til Rússar framfylgja Minsk-samkomulaginu.

Trump kvaðst hafa rætt í síma við Nieto Mexíkóforseta í klukkutíma um hvernig samband ríkjanna gæti orðið sem sanngjarnast. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×