Erlent

Vísindamenn berjast gegn þöggun ríkisstjórnar Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn fjölmargra stofnana í Bandaríkjunum hafa stofnað fjölda Twitter-síðna til þess að berjast gegn því sem þeir sjá sem þöggunartilburði ríkisstjórnar Donald Trump. Þeir nota Twitter til að koma út upplýsingum um rannsóknir varðandi hnattræna hlýnun og önnur vísindi, en ríkisstjórnin hefur stöðvað opinberar Twitter-síður stofnananna.

Þar á meðal eru starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna og Umhverfisstofnun. Hægt er að sjá lista yfir síðurnar hér.

Í síðustu viku var starfsmönnum Innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna bannað að nota Twitter-síðu ráðuneytisins eftir að starfsmaður tísti tölum um hver margir hefðu fylgst með innsetningarathöfn Trump og að síða á vef Hvíta hússins um hnattræna hlýnun væri horfin.

Samkvæmt Reuters hafa starfsmenn fleiri stofnanna fengið álíka skilaboð síðan. Þær takmarkanir sem settar hafa verið á umrædda opinbera starfsmenn hafa aukið áhyggjur yfir því að Trump vilji fela rannsóknir sem sýni fram á að brennsla jarðeldsneytis og aðrar aðgerðir manna ýti undir hnattræna hlýnun.

Á þriðjudaginn birtust nokkur tíst um hnattræna hlýnun á Twitter-síðu Badlands þjóðgarðsins í Suður-Dakóta. Þeim tístum var eytt fljótlega eftir að þau voru birt.

Innan nokkurra klukkustunda spruttu upp óopinberar Twitter-síður ýmissa stofnanna.

Á einum þeirra fyrstu má sjá tístið: „Getum ekki beðið eftir að Trump forseti kalli okkur „Fake News“. Þú getur tekið opinberar Twitter-síður okkar, en þú munt aldrei taka frítíma okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×