Erlent

McCain gagnrýnir pyndingaummæli Trump harðlega

atli ísleifsson skrifar
John McCain var um árabil stríðsfangi í Víetnam.
John McCain var um árabil stríðsfangi í Víetnam. Vísir/AFP
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain hefur harðlega gagnrýnt ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta um að hann vilji taka upp pyndingaaðferðir í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Í viðtali við ABC News í gær sagðist Trump vilja taka upp aðferðir á borð við svo kallað waterboarding, sem er ætlað að framkalla drukknunartilfinningu, við yfirheyrslur á grunuðum hryðjuverkamönnum.

Aðferðin var notuð í forsetatíð George W. Bush en síðar hætt. Trump segir hins vegar nauðsynlegt að „láta hart mæta hörðu“ í þessum málum og kveðst hafa fengið staðfest að yfirheyrsluaðferðin skili árangri.

Trump greindi þó ekki frá við hverja hann hafi rætt, en hefur nú beðið um álit Mike Pompeo, nýskipaðs forstjóra CIA, og James Mattis, nýs varnarmálaráðherra landsins.

Repúblikaninn McCain var lengi stríðsfangi í Víetnam og þurfti á þeim tíma sjálfur að sæta pyndingum. „Forsetinn getur undirritað hverja þá tilskipun sem hann vill, en lög eru lög. Við ætlum ekki að taka upp pyndingar að nýju,“ sagði McCain á Twitter-síðu sinni.

Leon Panetta, fyrrverandi varnarmálaráðherra og forstjóri CIA, gagnrýnir sömuleiðis Trump og segir að það yrðu mikil mistök að heimila pyndingar á ný.


Tengdar fréttir

Trump skipar fyrir um nýjan landamæravegg

Donald Trump boðar aðgerðir í innflytjendamálum hið snarasta. Reisa á vegg og innflutningi fólks frá sjö múslimaríkjum verða settar skorður. Samstarfsfólk segir stefnu Trumps skýra hátt gengi Dow Jones-vísitölunnar undanfarið.

Trump styður notkun pyndinga

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að grimmd meðlima hryðjuverkasamtakanna Ríkis Íslams, kalli á hertari aðgerðir, af hálfu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×