Erlent

Trump vill flýta fyrir byggingu umdeildra olíuleiðslna

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur skrifað undir tvær forsetatilskipanir í dag sem ætlað er að flýta byggingu tveggja umdeildra olíuleiðsla um Dakota. Ættbálkar Indíána og fjölmargir aðrir hafa mótmælt leiðslunum um langt skeið og Barack Obama, fyrrverandi forseti, stöðvaði byggingu annarrar leiðslunnar í árslok 2015. Bandaríkjaher ákvað svo í fyrra að reyna að finna aðra leið fyrir hina leiðsluna vegna mótmælanna.

Trump sagði að hann vildi „endursemja“ um leiðslurnar og að þær myndu skapa um 28 þúsund störf.

Olíuleiðslurnar eru nefndar Keystone XL og Dakota Access. Þeim er ætlað að flytja hráolíu frá Kanada til vinnslu í TexasDakota leiðslan liggur með fram friðarsvæði Standing Rock ættbálksins sem hefur staðið fyrir umfangsmiklum mótmælum.

Þrátt fyrir tilskipanirnar sem Trump skrifaði undir liggur ekki fyrir hvernig hann ætli að flýta byggingu olíuleiðslanna.

Umhverfisverndunarsinnar hafa brugðist illa við fregnunum í dag.

Í samtali við BBC segir Annie Leonard, framkvæmdastjóri Greenpeace, að Trump ætti að einbeita sér að hreinum orkugjöfum sem séu hluti af framtíð Bandaríkjanna í stað þess að halda því ranglega fram að olíuleiðslurnar muni skapa störf.

Michael Brune, framkvæmdastjóri Sierra Club, segir að Donald Trump hafi sýnt það á þeim fjórum dögum sem hann er búinn að vera forseti, að hann sé jafn hættulegur umhverfinu og óttast var.

„Einfaldlega sagt, þá er Donald Trump sá sem við héldum að hann væri. Það er einstaklingur sem mun selja eigur Bandaríkjamanna, rétt ættbálka, hreint loft og vatn til fyrirtækja sem menga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×