Erlent

Ísraelar nýta sér embættistöku Trump og hefja uppbyggingu landnemabyggða

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Samkvæmt alþjóðalögum eru landnemabyggðirnar taldar ólöglegar þó að Ísraelar séu því ekki sammála.
Samkvæmt alþjóðalögum eru landnemabyggðirnar taldar ólöglegar þó að Ísraelar séu því ekki sammála. Vísir/EPA
Ísraelsk yfirvöld hafa samþykkt uppbyggingu hundruði húsa, á landnemabyggðum í austurhluta Jerúsalemborgar. Þetta er gert einungis tveimur dögum eftir að ríkisstjórn Donald Trump tók við völdum í Bandaríkjunum, en ríkisstjórn Obama var andsnúin uppbyggingunni. BBC greinir frá.

Fyrrverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna var andsnúin uppbyggingunni þar eð henni þótti hún vega að lausn á deilum Ísraela við Palestínumenn, en sú lausn er kölluð „tveggja ríkja lausnin“ og kveður á um sjálfstætt ríki Palestínu.

Landnemabyggðirnar eru jafnframt taldar ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum en Ísraelar hafa ætíð véfengt þau lög.

Borgaryfirvöld samþykktu í dag leyfi til uppbyggingar á 566 nýjum húsum á svæðinu en áður hafði leyfisveitingunni verið slegið á frest vegna afstöðu ríkisstjórnar Bandaríkjanna og ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem landnemabyggðirnar voru gagnrýndar.

Var það í fyrsta skipti sem Bandaríkjamenn nýttu sér ekki neitunarvald sitt í öryggisráðinu til þess að koma í veg fyrir að Ísrael sé gagnrýnt á þeim vettvangi.

Ísraelsk yfirvöld urðu æf vegna þeirrar ákvörðunar og sagði forsætisráðherra Ísrael, Benjamín Netanyahu, að hún væri svívirðileg. Ísraelsk yfirvöld drógu meðal annars úr fjárframlögum sínum til Sameinuðu þjóðanna í hefndarskyni vegna þessa.

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur áður sagt að hann styðji uppbygginguna á þessum svæðum, ólíkt forvera sínum og því ákváðu Ísraelar að slá atkvæðagreiðslum um heimild fyrir frekari uppbyggingu á svæðunum á frest þar til hann væri kominn í embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×