Drónar og hundar verða notaðir við leitina en einnig fjöldi fjórhjóla og bíla. Auk þess munu tvær þyrlur taka þátt í leitinni en hún hefst klukkan níu.
„Eins og staðan er núna þá erum við að tala um stóran hluta af suðvesturhorninu sem við getum ekki útilokað. Við erum að tala um Borgarnes, Selfoss og allt Reykjanesið. Svo má bara draga hring á milli.“
Ásgeir segir að þegar svæðið sé afmarkað sé jafnframt tekið tillit til þess kílómetrafjölda sem ekinn var á tímabilinu sem skipverjarnir á Polar Nanoq höfðu bílinn til umráða. Bíllinn er bílaleigubíll og því er grannt fylgst með akstri bílsins hjá hverjum leigutaka fyrir sig.
Tveir grænlenskir skipverjar af togaranum sitja í gæsluvarðhaldi. Þeir voru í vikunni úrskurðaðir í tveggja vikna varðhald og gert að sæta einangrun meðan á því stendur. Lögreglan fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald en á það féllst héraðsdómur ekki. Úrskurðurinn var því kærður til Hæstaréttar sem enn á eftir að kveða upp sinn dóm.




