Erlent

Síðasti dagur Baracks Obama í embætti

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Obama á sínum síðasta blaðamannafundi sem forseti.
Obama á sínum síðasta blaðamannafundi sem forseti. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sver embættiseið klukkan fimm að íslenskum tíma í dag. Stuttu áður sver Mike Pence embættiseið varaforseta.

Athöfnin fer fram á tröppum þinghússins í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Forseti hæstaréttar, John Roberts, mun sverja Trump og Pence í embætti.

Því næst munu fráfarandi forsetahjónin, Barack og Michelle Obama, yfirgefa svæðið í þyrlu. Trump heldur því næst innsetningarræðu sína og hlýðir á tónlist. Um kvöldið verða svo fjölmargar veislur.

Obama, sem hefur gegnt embættinu í átta ár, hélt sinn síðasta blaðamannafund í gær. Þar stiklaði hann á stóru og óskaði forsetahjónunum fyrrverandi, George H. W. Bush og Barböru Bush, skjóts bata en þau voru lögð inn á spítala í vikunni.

„Ég hef notið þess að vinna með ykkur. Það þýðir þó ekki að ég hafi notið hverrar einustu fréttar sem þið hafið flutt en það er eðli fjölmiðla. Þið eigið ekki að vera aðdáendur heldur gagnrýnendur. Þið eigið að spyrja krefjandi spurninga,“ sagði Obama við blaðamenn.

Aðspurður um framtíð Bandaríkjanna undir stjórn Trumps sagði Obama: „Ég held að þetta verði allt í lagi.“

Rík hefð er fyrir því að fyrrverandi forsetar skipti sér ekki af verkum eftirmanna sinna. Obama sagðist þó tjá sig ef hann teldi grunngildum Bandaríkjanna ógnað.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×