Marokkó hefur gerst aðili að Afríkusambandinu á ný eftir 33 ára fjarveru vegna deilna um stöðu landsins Vestur-Sahara.
Ákvörðunin var tekin á leiðtogafundi Afríkusambandsins í eþíópósku höfuðborginni Addis Abeba í gær.
Mack Sall, forseti Senegal, greindi frá því á fréttamannafundi við lok fundar að eftir langar viðræður hafi 39 af 54 aðildarríkjum verið samþykk því að Marokkó gerðist aðili á nýjan leik, þrátt fyrir að enn sé deilt um stöðu Vestur-Sahara.
Marokkó sagði skilið við Afríkusambandið árið 1984 í mótmælaskyni eftir að sambandið staðfesti aðild Vestur-Sahara að sambandinu.
Vestur-Sahara er fyrrverandi spænsk nýlenda á norðvesturströnd Afríku með landamæri að Máritaníu, Marokkó og Alsír. Eftir að Spánverjar yfirgáfu svæðið lögðu Marokkóar landið undir sig, en Polisario-hreyfingin hefur barist fyrir sjálfstæði svæðisins um árabil.
Á fundi gærdagsins var einnig ákveðið að Moussa Faki Mahamat, utanríkisráðherra Tsjad, verði nýr framkvæmdastjóri sambandsins og tekur hann við af hinni suður-afrísku Nkosazana Dlamini-Zuma sem hefur gegnt stöðunni frá 2012.
Marokkó gerist aftur aðili að Afríkusambandinu

Tengdar fréttir

Utanríkisráðherra Tsjad nýr framkvæmdastjóri Afríkusambandsins
Moussa Faki Mahamat tekur við stöðunni af hinni suður-afrísku Nkosazana Dlamini-Zuma.