Erlent

Trump þvertekur fyrir að tilskipun hans hafi valdið ringulreið á flugvöllum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fjölmenni kom saman á JFK-flugvellinum í New York um helgina til að mótmæla tilskipun Donald Trump.
Fjölmenni kom saman á JFK-flugvellinum í New York um helgina til að mótmæla tilskipun Donald Trump. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti þvertekur fyrir að umdeild tilskipun hans um flóttamenn og innflytjendur hafi valdið ringulreið á flugvöllum víðsvegar um Bandaríkin. AP greinir frá.

Samkvæmt tilskipun Trump hefur öllum ríkisborgurum Íraks, Írans, Líbíu, Sómalíu, Súdans, Sýrlands og Jemens inngöngu í Bandaríkin. Bannið gildir einnig um þá sem hafa varanlegt dvalar- og atvinnuleyfi í Bandaríkjunum.

Töluverð ringulreið skapaðist á flugvöllum í Bandaríkjum um helgina, skömmu eftir að tilskipunin tók gildi og festust fjölmargir ríkisborgarar þessara ríkja á flugvöllunum eftir að þeim var ekki hleypt inn í Bandaríkin á grundvelli tilskipunarinnar.

Trump hefur tíst um málið í dag og segir að þau vandamál sem hafi skapast á flugvöllunum hafi verið vegna bilunar í kerfi flugfélagsins Delta og þeirra mótmælenda sem mætti á flugvellina til að mótmæla tilskipunni.

Bilun varð í kerfi Delta sem varð til þess að 150 flugferðum var aflýst eða frestað auk þess sem að mótmælendur fylltu marga af helstu flugvöllum Bandaríkjanna.

„Það er ekkert skemmtilegt við það að leita að hryðjuverkamönnum áður en þeir koma inn í landið. Þetta var eitt af stóru kosningaloforðunum mínum,“ sagði Trump á Twitter-síðu sinni.

Þá sagði Trump einnig að nauðsynlegt hefði verið að setja tilskipunina án fyrirvara ella hefðu fjölmargir „slæmir náungar“ hrúgast inn í Bandaríkin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×