Íslenski boltinn

Fylkismenn vilja vera komnir með gervigras á aðalvöllinn í maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fylkismenn vilja fara sömu leið og Valsmenn og setja gervigras á aðalvöllinn sinn. Þeir stefna á að spila fyrsta leik í sumar á nýju gervigrasi.

Arnar Björnsson kannaði þetta mál í kvöldfréttum Stöðvar tvö í kvöld og ræddi við Björn Gíslason, formann Fylkis.

Knattspyrnufélagið Fylkir á í samningaviðræðum við Reykjavíkurborg um að setja gervigras á aðalvöll félagsins. Formaður Fylkis vonast til þess að völlurinn verði tilbúinn í maí, á 50 ára afmæli félagsins.

Fótboltavöllur þeirra Fylkismanna hefur oft verið til vandræða en nú gætu Fylkismenn séð fram á betri tíð.  Gert er ráð fyrir að Reykjavíkurborg fái æfingasvæði Fylkis við Hraunbæ undir íbúðabyggð en í staðinn fær Fylkir gervigras á aðalvöllinn með flóðljósum.  

„Við erum bjartsýnir á það að þetta takist allt saman og það það verði komið gervigras á 50 ára afmælisári félagsins. Ég held að ég geti sagt það að það sé algjör einhugur að fara í gervigras. Við lentum í því fyrir þremur árum að geta ekki farið að spila fyrr en um miðjan júní og þá spilaði liðið sjö útileiki í röð hjá bæði karla og kvennaliði. Það gengur ekki. Tímabilið er að byrja núna í lok apríl og það sjá það allir að þetta er ekki hægt, “ sagði Björn Gíslason, formaður Fylkis í samtali við Arnar Björnsson.

       

Valsmenn réðust í framkvæmdir í júlí 2015 og skiptu náttúrulega grasinu út fyrir gervigras. Fylkismenn hafa leitað í smiðju Valsmanna.

Það má sjá allt innslag Arnars um nýja gervigrasið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×