Fótbolti

Gary Martin kveður landið sem gaf honum allt: „Þar til næst, Ísland, takk fyrir allt“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Martin í leik með Víkingi á móti KR en hann spilaði líka fyrir vesturbæjarliðið.
Gary Martin í leik með Víkingi á móti KR en hann spilaði líka fyrir vesturbæjarliðið. vísir/ernir
Gary Martin, enski framherjinn sem spilaði með ÍA, KR og Víkingi í Pepsi-deild karla í fótbolta, kveður Ísland með söknuði í Facebook-færslu sem hann setti inn áður en hann flaug til Belgíu í nótt.

Gary, sem setti svo sannarlega svip sinn á íslenskan fótbolta þau sex ár sem hann spilaði hér á landi, samdi við belgíska úrvalsdeildarliðið Lokeren í janúar en hann spilaði síðast með Víkingi í efstu deild og skoraði þar fimm mörk í þrettán leikjum.

Englendingurinn, sem kom fyrst til Íslands árið 2010 til að spila fyrir ÍA, var hér á landi að ná í restina af dótinu sínu. Þessi 26 ára gamli markahrókur, sem varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með KR, fer fallegum orðum um Ísland í stuttu kveðjubréfi. Hann segir Ísland vera llandið sem gaf honum tækifæri á að spila áfram fótbolta þegar ferillinn á Englandi sigldi í strand.

„Síðasti dagurinn sem ég bý á Íslandi. Sá tími er kominn að ég flyt frá landinu sem gaf mér í raun og veru allt; fallega eiginkonu, þrjá frábæra ketti og tækifæri til að spila áfram fótbolta þegar ég var 19 ára gamall,“ segir Gary í hugljúfri Facebook-færslu.

„Nú er kominn tími til að skrifa nýjan kafla í bókina með Lokeren í Belgíu. Þar til næst, Ísland, takk fyrir allt,“ segir Gary Martin.

Gary er búinn að spila þrjá leiki fyrir Lokeren nú þegar, þar af einn sem byrjunarliðsmaður, en á eftir að skora fyrir belgíska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×