Íslenski boltinn

Fyrirliði KR síðasta sumar farin heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik með KR í Pepsi-deildinni í fyrrasumar.
Frá leik með KR í Pepsi-deildinni í fyrrasumar. Vísir/Eyþór
Íris Ósk Valmundsdóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við C-deildarlið Fjölnis. Hún er að snúa aftur heim til síns æskufélags.

Íris Ósk er 25 ára miðvörður sem hefur spilað 64 leiki í efstu deild. Hún er uppalin Fjölnismaður og spilaði 32 leiki með liðinu í úrvalsdeildinni áður en hún til Stjörnunnar og KR.

Íris Ósk var fyrirliði KR í þeim tíu leikjum sem hún lék með liðinu í Pepsi-deild kvenna síðasta sumar.

„Þessi félagsskipti sýna þann mikla metnað og kraft, svo ekki verður um villst, sem býr innan félagsins um þessar mundir og er stór yfirlýsing út á við til annarra liða - enda annar mjög öflugur liðsstyrkur á skömmum tíma. Við Fjölnismenn hlökkum til að sjá Írisi á vellinum í sumar og bjóðum hana velkomna heim í Grafarvoginn aftur," segir í fréttatilkynningu frá Fjölni í kvöld.

Berglind Magnúsdóttir skrifaði undir tveggja ára samning við Fjölni fyrr í vikunni en hún lék síðast með Þór/KA en hefur búið í Danmörku undanfarin ár.

Berglind er markvörður og það má búast við sterki vörn hjá Fjölni í 2. deildinni í sumar með hana og Íris Ósk í fararbroddi.

Fjölnir er eitt af liðunum sem datt niður í 2. deild þegar fjölgað var um eina deild hjá konunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×