Erlent

Gorsuch tilnefndur sem nýr dómari Hæstaréttar Bandaríkjanna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Trump og Gorsuch.
Trump og Gorsuch. vísir/epa
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt Neil Gorsuch sem dómara við Hæstarétt landsins. Gorsuch mun taka sæti Antonin Scalia, sem lést í fyrra, ef öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkir tilnefninguna.

Gorsuch er 49 ára og starfar sem dómari við áfrýjunardómstól í Colorado-ríki en hljóti hann samþykki öldungadeildarinnar verður hann yngsti Hæstaréttardómari Bandaríkjanna í 25 ár.

Trump sagði við tilnefninguna í Hvíta húsinu í gærkvöldi að hann hefði lofað bandarísku þjóðinni að finna besta dómara landsins til þess að fylla í skarð Scalia. Hann hefði tekið verkefninu mjög alvarlega og tekið ákvörðunina af mikilli kostgæfni. „Gorsuch verður frábær dómari um leið og öldungadeildin samþykkir hann,“ sagði Trump.

Gorsuch er sagður afar íhaldssamur og hallur undir kristileg gildi. Hann er einnig mjög fylginn stjórnarskránni, líkt og Scalia dómari var einnig. Barack Obama Bandaríkjaforseti hafði skipað Merrick Garland sem eftirmann Scalia en þingmenn Repúblikana komu í veg fyrir þá tilnefningu.

Sitt sýndist hverjum um tilnefninguna og kom nokkur fjöldi saman við Hvíta húsið í gær til þess að mótmæla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×