Fótbolti

Victor og félagar byrja nýtt ár með sigri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar unnu frábæran sigur í kvöld.
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar unnu frábæran sigur í kvöld. mynd/esbjerg
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar hans í Esbjerg byrja nýtt ár með stæl en þeir unnu frábæran 3-0 sigur á SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Úrvalsdeildin danska fór af stað í kvöld eftir hið langa vetrarfrí þar í landi og var Rúnar Alex Rúnarsson í marki Nordsjælland sem tapaði, 1-0, á heimavelli fyrir Lyngby. Þar var Hallgrímur Jónasson ekki í leikmananhópi gestanna.

Guðlaugur Victor var að vanda í byrjunarliði Esbjerg og spilaði á miðjunni í kvöld en Esbjerg er búið að vera í botnbaráttu deildarinnar allt tímabilið og er þar enn.

Robin Söder kom heimamönnum yfir á 54. mínútu, Awer Mabil tvöfaldaði forskotið á 81. mínútu og Kostas Tsimikas innsiglaði 3-0 sigur Esbjerg fimm mínútum síðar. SönderjyskE var fyrir leikinn í sjötta sæti, ellefu stigum á undan Esbjerg.

Esbjerg er áfram í tólfta sæti deildarinnar af fjórtán liðum með 22 stig, stigi á eftir AGF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×