Erlent

Bað Netanytahu um að byggja ekki fleiri landtökubyggðir „í smá stund“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Benjamin Netanyahu.
Donald Trump og Benjamin Netanyahu. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Badnaríkjanna, bað Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, um að stöðva byggingu nýrra landtökubyggða „í smá stund“. Þá gerði hann ljóst að Bandaríkin væru ekki bundin til að halda sig við tveggja ríkja lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna.

Stofnun ríkis Palestínumanna hefur verið opinber stefna Bandaríkjanna í áratugi.

Á sameiginilegum blaðamannafundi þeirra í kvöld sagði Trump að báðir aðilar þyrftu að láta eitthvað eftir og lofaði „frábærum friðarsamningi“.

„Ég er að skoða tvö ríki og eitt ríki og ég kann við þá leið sem báðum aðilum líkar við,“ sagði Trump og bætti við að hann gæti lifað með báðum niðurstöðunum.

Eftir að Donald Trump tók við embætti í síðasta mánuði hafa Ísraelar samþykkt að byggja þúsundir nýrra heimila á Vesturbakkanum og í austurhluta Jerúsalem, á landi sem er í eigu Palestínumanna.

Netanyahu sagði þó að landtökubyggðirnar væru ekki kjarni átakanna á milli Ísraela og Palestínumanna. Hann lýsti því ekki yfir á blaðamannafundinum hvort hann myndi stöðva byggingu landtökubyggða eða ekki.


Tengdar fréttir

Trump kennir fjölmiðlum um afsögn þjóðaröryggisráðgjafa

Öldungadeildarþingmenn bæði Repúblikana og Demókrata í Bandaríkjunum þrýsta á að að ítarleg rannsókn fari fram á samskiptum fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump forseta og annarra starfsmanna framboðs hans við rússnesku leyniþjónustuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×