Erlent

Vinnumálaráðherraefni Trump dregur sig í hlé

Samúel Karl Ólason skrifar
Andrew Puzder.
Andrew Puzder. Vísir/AFP
Andrew Puzder, maðurinn sem Donald Trump hafði tilnefnt í embætti vinnumálaráðherra Bandaríkjanna, hefur dregið sig í hlé og ætlar ekki að sækjast eftir embættinu. Yfirheyrslur yfir honum áttu að fara fram á morgun, en hann hafði misst stuðningi öldungaþingmanna Repúblikana og hefði líklega ekki verið staðfestur í embættið.

Puzder viðurkenndi að hafa ráðið húsfreyju sem var ólöglegur innflytjandi og hefur einnig verið gagnrýndur fyrir fyrri ummæli sín um konur og vinnandi fólk. Hann er framkvæmdastjóri fyrirtækis sem á veitingastaðina Hardees og Carl‘s Jr.

Ummæli hans um yfirvinnu og lágmarkslaun hafa einnig verið umdeild. Þar að auki kom þáverandi eiginkona hans fram í þætti Opruh Winfrey árið 1990 og sakaði hann um að hafa beitt sig ofbeldi. Hún dró þau ummæli þó til seinna til baka og sagði þeim hafa verið ætlað að hjálpa henni að öðlast forræði yfir börnum þeirra.

Minnst 50 öldungaþingmenn hefðu þurft að greiða atkvæði honum í vil, en þingmenn Repúblikanaflokksins eru einungis 52. Samkvæmt heimildum CNN höfðu fjórir þeirra lýst því yfir við aðra þingmenn að þeir myndu ekki greiða honum atkvæði og allt að tólf höfðu dregið það í efa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×