Erlent

Mikill aðdáandi Söngvaseiðs mögulega næsti sendiherra Bandaríkjanna í Austurríki

atli ísleifsson skrifar
Julie Andrews fór með hlutverk Mariu von Trapp í kvikmyndinni The Sound of Music.
Julie Andrews fór með hlutverk Mariu von Trapp í kvikmyndinni The Sound of Music. soundofmusic.com
Bandarískir fjölmiðlar segja frá því að hinn auðugi iðnjöfur, Patrick Park, kunni að verða næsti sendiherra Bandaríkjanna í Austurríki.

Hinn 63 ára Park hefur lengi þekkt Donald Trump Bandaríkjaforseta og segir Palm Beach Daily News að Park hafi fengið handskrifuð skilaboð frá forsetanum þar sem stóð að nú „tæki nýr kafli við, sendiherra!“

Park er búsettur í Flórída og þykir afburða konsertpíanisti. Hann er mikill aðdáandi söngleiksins Sound of Music, eða Söngvaseiðs, sem gerist einmitt í Salzburg í Austurríki.

Stiklu úr söngleiknum má sjá hér að neðan.

Park kveðst hafa séð myndina að minnsta kosti sjötíu sinnum. „Ég get þulið hverja línu og hvert lag eftir minni. Ég hef alltaf óskað þess að búa í húsi von Trapp-fjölskyldunnar.“

Í fréttinni segir að Trump álíti Austurríki vera fullkomið land fyrir Park til að starfa sem sendiherra vegna ríkrar tónlistararfleifðar landsins. Park hefur enga reynslu af störfum í utanríkisþjónustunni.

Enn hefur ekki fengist staðfesting á skipun Park, en hann hefur sjálfur sagt að fyrsta heimsókn sín sem sendiherra yrði að heimili von Trapp-fjölskyldunnar.

„Ég ætla að fljúga til Vínarborgar og svo fer ég til Salzburg til að athuga hvort von Trapp-heimilið sé til leigu. Svo ætla ég að læra að líka við schnitzel og Sachertorte,“ segir Park.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×