Fótbolti

Lárus: Viðar talar um starf neðrideildarliða á niðrandi hátt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lárus Guðmundsson og Viðar Halldórsson.
Lárus Guðmundsson og Viðar Halldórsson.
Lárus Guðmundsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu og formaður KFG í Garðabæ, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Viðars Halldórssonar í Akraborginni á X-inu í gær.

Viðar er formaður FH og gagnrýndi í viðtali við Hjört Hjartarson hversu mikil áhrif sum lið í neðstu deildunum hefðu haft á ársþingi KSÍ um helgina.

„Til gamans sýnist mér 30 af þeim 40 félögum sem hafa skráð sig til leiks í tveimur neðstu deildunum séu án barna- og unglingastarfs og kvennastarfs. Þetta eru hópar manna sem hafa tekið sig saman og vilja spila fótbolta í meistaraflokki. Það kalla ég ekki grasrót,“ sagði Viðar meðal annars í viðtalinu.

Lárus sendi yfirlýsingu til Fótbolta.net vegna ummæla Viðars og fannst þau skjóta skökku við.

Meðal annars nefnir hann að eiginkona Viðars hafi verið fulltrúi 4. deildarliðs ÍH á þinginu eins og Vísir fjallaði um á laugardag.

„Ekki truflaði það Viðar á þessum tímapunkti að ÍH er ekki með barna- og unglingastarf,“ sagði í yfirlýsingu Lárusar.

Hann segir að það ætti að fara varlega í að gagnrýna starfið sem fer fram í neðri deildum Íslandsmótsins og bendir Lárus á að mörg stór félög nýti tengsl sín við neðrideildarfélög til að gefa leikmönnum tækifæri.

„Viðar talar einfaldlega á niðrandi hátt um starf neðrideildarliða og af töluverðri vanþekkingu,“ segir Lárus í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×