Íslenski boltinn

Gaupi hitti Geir út á flugvelli: Svipuð tilfinning og að enda mót með titli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Þorsteinsson hefur verið formaður Knattspyrnusambands Íslands í tíu ár, formaður eða framkvæmdastjóri í tuttugu ár og alls unnið hjá sambandinu í aldarfjórðung. Nú er hinsvegar komið að kveðjustund.

Geir segir að það sé eftirsjá í þessum störfum en Guðjón Guðmundsson hitti hann á Reykjavíkurflugvelli í dag.

„Þetta eru erfiðir dagar núna og ég kveð knattspyrnusambandið með söknuði,“ sagði Geir Þorsteinsson.  Geir er að kveðja eftir besta ár í sögu fótboltans á Íslandi.

„Það finnst mörgum það skrýtið að ég sé að kveðja á þessum tímapunkti og það er eðlilegt. Ætli að þetta sé ekki tilfinningin að það sé gott að enda með titli. Þetta er svona svipuð tilfinning,“ sagði Geir.

Fannst Geir á einhverjum tímapunkti hafa verið gerð að honum  persónulega sem formanni?

„Ég kannast ekki við það. Ég hef alltaf notið gríðarlegs stuðnings minna aðildarfélaga en það er helst að fjölmiðlamenn búi til einhvern æsing. Ég kannast ekki við hann,“ sagði Geir.

„Það hefur ekki alltaf verið einhugur um öll mál en einingin í knattspyrnuhreyfingunni undir minni stjórn hefur verið gríðarlega góð,“ sagði Geir.

Geir hefur væntanlega fylgst með kosningabaráttunni milli Björns Einarssonar og Guðna Bergssonar á hliðarlínunni. Hún er býsna hörð á lokametrunum.

„Það eru algjörlega breyttir tímar í dag. Þjóðfélagið er miklu opnara og það geta allir tekið þátt í baráttunni. Þetta var ekki svona fyrir tíu árum þegar ég vann kosninguna. Þetta leiðir hugann að því að það þarfa að endurskoða lög knattspyrnusambandsins að ýmsu leyti,“ sagði Geir.

„Knattspyrnusambandið stendur gríðarlega vel og það er ekkert óeðlilegt að þessir menn keppist um sætið og að allir vilji hafa skoðun á því,“ sagði Geir.

Það má sjá allt innslag Guðjóns Guðmundssonar frá því úr kvöldfréttum Stöðvar tvö í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Út hjá KSÍ, inn hjá FIFA

Geir Þorsteinsson, fráfarandi formaður KSÍ, hefur verið skipaður í nefnd hjá FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×