Erlent

Þingmenn staðfesta Tom Price í embætti heilbrigðismálaráðherra

Samúel Karl Ólason skrifar
Tom Price.
Tom Price. Vísir/AFP
Öldungadeildarþing Bandaríkjanna hefur staðfest þingmanninn og augnskurðlækninn Tom Price í embætti heilbrigðismálaráðherra. Þingmenn kusu eftir flokkslínum en niðurstaðan var 52 gegn 47. Repúblikanar stefna að því að staðfesta tvo ríkisstjórnarmeðlimi Trump á mánudaginn.

Price hefur verið þingmaður í sjö kjörtímabil og mun spila stóra rullu í því að gera út af við heilbrigðiskerfisbreytingar Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem ganga undir nafninu Obamacare. Hann gæti á skömmum tíma breytt fjölda reglna varðandi framkvæmd Obamacare og undirbúið heilbrigðiskerfið fyrir það að þingið fellir lögin niður.

Repúblikanar hafa unnið að því að finna nýja lausn til að leysa Obamacare af, en fjöldi fólks mun missa aðgang að heilbrigðisþjónustu þegar lögin verða felld úr gildi. Þeir hafa hins vegar ekki komist að samkomulagi um nýja lausn og telja Price kjörinn til að hjálpa til við það ferli þar sem hann þekki vel til innan heilbrigðisgeirans.

Paul Ryan, forseti þingsins, hefur heitið því að ný lausn verði klár á þessu ári.

Öldungadeildarþingmenn demókrata spurðu Price ítrekað út í umfangsmikil verðbréfaviðskipti hans í fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum á sama tíma og hann tók þátt í vinnu við lagasetningu í sama geira. Price segir þó að viðskipti sín hafi verið lögleg og siðferðislega réttmæt.

Þá var Price einnig gagnrýndur fyrir að vilja skera niður fjármagn til Planned Parenthood, sem veitir konum heilbrigðisþjónustu víða um Bandaríkin. Fóstureyðingar eru þar á meðal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×