Erlent

Trump reiður FBI vegna leka

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er reiður út í Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI. Hann setti út á stofnunina á Twitter í dag vegna þess að henni hefði ekki tekist að stöðva upplýsingaleka opinberra starfsmanna. Jafnvel gætu rannsakendur ekki fundið lekana innan FBI.

Hann sagði umrædda leka, sem hafa reynst ríkisstjórn hans erfiðir, geta stórskaða öryggi Bandaríkjanna.

Tilefni tístanna er líklega fregnir CNN frá því í gærkvöldi um að starfsmannastjóri Hvíta hússins, Reince Priebus, hefði beðið starfsmenn FBI um að afneita fregnum um ítrekuð samskipti starfsmanna Trump á meðan á forsetakosningunum stóð. FBI neitaði þeirri beiðni.

Samskipti starfsmanna Trump við Rússa eru til rannsóknar innan veggja FBI, samkvæmt frétt New York Times. Það var sú frétt sem Preibus vildi að FBI segði vera ranga.

Samkvæmt henni eru til upptökur af símtölum starfsmanna Trump við Rússa og meðal annars starfsmenn Leyniþjónustu Rússlands. Símtölin uppgötvuðust um sama skeið og leyniþjónustur Bandaríkjanna voru að leita sönnunargagna um að yfirvöld í Rússlandi hefðu reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra.

Alls ekki í fyrsta sinn

Trump hefur ítrekað veist að leyniþjónustusamfélagi Bandaríkjanna á Twitter og þá aðallega FBI og CIA. Nú í síðasta mánuði líkti hann samfélaginu við Þýskaland á tímum nasismans.

Fyrr í mánuðinum sagði Trump við blaðamenn að ríkisstjórn hans myndi finna þá sem væru að leka neikvæðum upplýsingum um ríkisstjórnina til fjölmiðla.

„Þeir munu gjalda hátt verð fyrir,“ sagði Trump.

Einnig var tíst um lekana frá opinberum forsetaaðgangi Trump á Twitter og fylgdi hlekkur á Facebook síðu hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×