Erlent

Birta gögn sem eiga að sýna hvernig CIA hakkaði sig inn í síma, tölvur og sjónvörp

Birgir Olgeirsson skrifar
CIA á að hafa hlerað almenning í gegnum iPhone, Android og Samsung-sjónvörp.
CIA á að hafa hlerað almenning í gegnum iPhone, Android og Samsung-sjónvörp. Vísir/EPA
Uppljóstrunarsamtökin Wikileaks hefur birt gögn sem eru sögð sýna hvernig leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, njósnar um almenning. Er lekinn nefndur Vault 7: CIA Hacking Tools Revealed

Um er að ræða spilliforrit sem er beint að öllum helstu stýrikerfum, þar á meðal Windows, Android, iOS, OSX og Linux. Veita þessi spilliforrit leyniþjónustunni því aðgang að tölvum og símum almennings.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC segir CIA hafa hannað eitthvað af þessum forritum en tekið er fram að breska leyniþjónustan hafi tekið þátt í að þróa njósnabúnað sem veitir aðgang að Samsung-sjónvörpum.

BBC segir talskonu CIA ekki hafa viljað tjá sig um málið.

Snowden segir lekann stórmál

Uppljóstrarinn Edward Snowden, sem sjálfur hefur lekið upplýsingum um hvernig bandaríska þjóðaröryggisstofnunin NSA hleraði almenning, segir þennan leka Wikileaks vera stórmál.

Wikileaks segir þann sem kom þessum upplýsingum á framfæri hafa viljað opna umræðu um hvort CIA hafi farið fram úr sér þegar kemur að njósnum um almenning.

Notuðu sjónvörpin til að hlera samtöl

Í gögnum er greint frá því að sú aðgerð CIA að reyna að komast inn í Samsung-sjónvörp hafi verið nefnd Weeping Angel.

Á CIA að hafa hannað forrit sem lætur líta út fyrir að slökkt sé á sjónvarpinu. Þannig á CIA að geta tekið upp hljóð úr sjónvarpinu án þess að eigendurnir verða þess varir. Um leið og þeir kveiktu aftur á sjónvarpinu sendi forritið þessar upptökur til CIA-gagnvera.

Wikileaks heldur því einnig fram að CIA hafi nýtt sér öryggisgalla í Android-símum og þannig geta komist í samtöl sem áttu sér stað á Whatsapp, Signal, Telegram og Weibo. Þá á CIA einnig að hafa náð að lesa smáskilaboð með þessum hætti.

Sérhæfður hópur til að komast í iPhone

Því er einnig haldið fram að CIA hafi sett af stað sérhæfðan hóp sem átti að komast í iPhone-síma og iPad-spjaldtölvur, þannig að hægt væri að sjá nákvæma staðsetningu eigenda slíkra tækja, kveikja á myndavélum og hljóðnemum þeirra og lesa texta skilaboð.

Þá kemur einnig fram að CIA hafi reynt að finna leiðir til að komast inn í tölvukerfi bíla. CIA á einnig að hafa fundið leið til að komast inn í tölvur sem voru ekki tengdar við internetið eða önnur kerfi. Það á að hafa verið gert með því að fela gögn í myndum og öðrum skjölum.

CIA mun einnig hafa hannað búnað sem átti að komast inn í tölvutæki í gegnum vírusvarnir þeirra.

Wikileaks segir þennan leka vera þann fyrsta af mörgum um þær aðferðir sem CIA notar til að njósna. Wikileaks bendir á að þessar upplýsingar hafi farið á milli tölvuhakkara sem áður unnu fyrir bandarísk yfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×