Erlent

Trump kallar eftir rannsókn á tengslum Demókrata við Rússlandsstjórn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir á Twitter síðu sinni að hann vilji að tengsl Chuck Schumer og Nancy Pelosi við yfirvöld í Rússlandi verði rannsökuð. 

Chuck Schumer er öldungardeildarþingmaður fyrir Demókrataflokkinn og Nancy Pelosi er leiðtogi Demókrata í neðri deild þingsins.

Á Twitter síðu sinni birti Trump mynd af Schumer þar sem hann sést drekka kaffi með Vladimír Pútín Rússlandsforseta og kallar hann „algjöran hræsnara.“

Schumer var þó ekki lengi að svara fyrir sig, sagðist glaður vilja útskýra og benti á að myndin væri tekin árið 2003 fyrir opnum tjöldum. 

Myndin var tekin þegar fyrsta bensínstöð rússneska olíufyrirtækisins Lukoil var opnuð í New York fylki fyrir fjórtán árum síðan.

Seinna deildi Trump frétt Politico og sagðist einnig vilja rannsókn á Nancy Pelosi, sem hafði áður neitað að hafa hitt Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Í frétt Politico má sjá mynd af fundi þeirra Kislyak og Pelosi árið 2010 þegar Dimitriy Medvedev var forseti Rússlands.

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, er þessa daganna undir mikilli pressu og er sakaður um að hafa logið undir eiðstaf fvarðandi samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Möguleg tengsl Donald Trump og starfsmanna hans við Rússland hafa valdið honum miklum vandræðum.

Rússar eru sakaðir um að hafa haft áhrif á kosningarnar og þá meðal annars með tölvuárásum og áróðri. Yfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú hvort að ráðgjafar Trump hafi starfað með Rússum. Sem yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna er Sessions í raun yfir þeirri rannsókn. Hann sagði sig þó frá rannsókninni í gærkvöldi.

Þingmenn Demókrata vilja þó að Sessions segi af sér og segja afsökun hans fyrir því að hafa afvegaleitt þingmenn sé ekki trúverðug.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×