Viðskipti innlent

Ekki hægt að sækja neinn til saka fyrir bankablekkinguna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei í reynd fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8 prósent hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi.

Um var að ræða blekkingu, að sögn Finns Þórs Vilhjálmssonar, starfsmanns rannsóknarnefndarinnar en niðurstöður hennar voru kynntar á blaðamannafundi í Iðnó í dag.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.Vísir/GVA
Vissu af feluleiknum

Í skýrslunni segir að ítarleg skrifleg gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu.

Meðal þeirra sem tóku þátt í fléttunni eða höfðu vitneskju um það sem fram fór voru Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri og aðstoðarforstjóri Kaupþings á þeim tíma.

Steingrímur Kárason, yfirmaður áhættustýringar í Kaupþingi hf., Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings hf., og Bjarki Diego, sem starfaði sem lögfræðingur í Kaupþingi hf. á sama tíma, svo og Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A.

Frá fundi rannsóknarnefndar Alþingis í dag þar sem skýrslan var kynnt.Vísir/Sigurjón
Málið til þingsins

„Ólafur Ólafsson stýrði verkefninu frá A-Ö,“ sagði Finnur á blaðamannafundinum í dag.

Refsing við auðgunarbrotum nema að hámarki sex ára fangelsi. Í 81. grein almennra hegningarlaga segir að sök í málum sem ekki liggur fyrri þyngri refsing við broti en tíu ára fangelsi fyrnist á tíu árum. Af því má ljóst vera að ekki er hægt að höfða sakamál á hendur fyrrnefndum aðilum.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir í samtali við Vísi að skýrslan nefndarinnar fari nú til þingsins. Framvinda málsins ráðist af meðferð þingsins. Kjartan Björgvinson, formaður rannsóknarnefndarinnar, sat fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í hádeginu í dag og svaraði spurningum nefndarinnar.

Upptöku frá blaðamannafundinum í Iðnó má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Ólafur Ólafsson við rannsóknarnefndina: ,,Bara I´m sorry“

Enginn þeirra fjögurra einstaklinga sem rannsóknarnefnd Alþingis boðaði til skýrslutöku vegna rannsóknarinnar á einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser mætti til skýrslutöku á vegum nefndarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×