Fótbolti

Eigendur NFL-liða fá milljarða fyrir að "leyfa“ þremur liðum að flytja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
NFL-deildin býr til mikla peninga fyrir eigendur sína.
NFL-deildin býr til mikla peninga fyrir eigendur sína. Mynd/Samsett/Getty
NFL-liðin San Diego Chargers, St. Louis Rams og Oakland Raiders heyra öll brátt sögunni til en þó aðeins af nafninu til.

Þessi þrjú NFL-lið hafa öll flutt sig á milli borga eða eru að fata að flytja sig á milli borga í Bandaríkjunum.

St. Louis Rams er þegar orðið að Los Angeles Rams, San Diego Chargers breytti líka um nafn og heimborg og heitir hér eftir Los Angeles Chargers. Það lítur síðan allt út fyrir að Oakland Raiders verði fyrr en varir orðið að Las Vegas Raiders. Oakland Raiders mun þó væntanlega halda sig í Kaliforníu á næsta tímabili.

Það er ekki auðvelt fyrir borgir að fá NFL-lið og sumum hefur reynst um megn að halda NFL-liðum sínum. NFL-deildin setur miklar kröfur á félögin eins og að byggja nýja og glæsilega leikvanga.  St. Louis og San Diego fengu ekki slíka fjárfestingu samþykkta og hafa því misst sín NFL-lið.

Það er líka mjög kostnaðarsamt fyrir félögin að flytja liðin sín milli borga og þá erum við ekki að horfa á sjálfan flutningskostnaðinn.

Eigendur hinna 29 félaganna í deildinni fá nefnilega alveg þokkalegar upphæðir í vasann fyrir að samþykkja slíka flutninga.

Darren Rovell, blaðamaður ESPN sem einbeitir sér að viðskiptahluta íþróttanna, hefur heimildir fyrir því að eigendur liðanna muni fá hver um sig alls um 53 milljónir dollara í sinn hlut fyrir að stuðla að því að félögin megi spila á nýjum stað.

53 milljónir dollara eru meira en 5,8 milljarðar íslenskra króna. Það er því ekkert skrýtið að eigendurnir segi já þegar þeir eru spurðir um leyfi.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×