Danny Blind, þjálfari hollenska landsliðsins í fótbolta, viðurkenndi eftir afar óvænt 0-2 tap gegn Búlgaríu í gær að kannski væri kominn tími til þess að annar þjálfari myndi spreyta sig með liðið.
Þrátt fyrir að vera í efsta styrkleikaflokk lenti hollenska liðið í erfiðum riðli sem innihélt meðal annars Frakklands en þegar undankeppnin er hálfnuð er Holland með aðeins sjö stig, sex stigum á eftir Frökkum.
Sjá einnig:Hollendingar steinlágu í Búlgaríu | Níu Grikkir náðu stigi í Brussel
Blind tók við hollenska liðinu af Guus Hiddink fyrir tveimur árum og mistókst að koma Hollandi á Evrópumótið í Frakklandi síðasta sumar.
Eins og frægt er sátu Hollendingar eftir í riðli Íslendinga aðeins tveimur árum eftir að hafa unnið til bronsverðlauna á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu.
Það vakti mika athygli að Matthijs De Ligt fengi að þreyta frumraun sína í leiknum í gær en hann er aðeins sautján ára. Hann átti sök á fyrsta marki Búlgaríu en Blind sagðist ekki hafa haft aðra möguleika.
„Ég tek sökina á mig, það er greinilega þörf á breytingum. Ég er ekki að kasta inn hvíta handklæðinu en ég þarf að fara í ítarlega naflaskoðun á liðinu og mér sjálfum. Kannski voru það mín mistök að láta hann byrja þennan leik en ég hafði enga aðra valkosti.“
