Fótbolti

Matthías þakkaði traustið og skoraði framhjá Ingvari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Matthías nýtti tækifærið í byrjunarliðinu vel.
Matthías nýtti tækifærið í byrjunarliðinu vel. vísir/getty
Rosenborg fer vel af stað í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðið hefur unnið báða leiki sína á tímabilinu.

Í kvöld unnu norsku meistararnir 0-3 útisigur á nýliðum Sandefjord sem hafa tapað báðum leikjum sínum til þessa.

Matthías Vilhjálmsson var í byrjunarliði Rosenborg og þakkaði traustið með marki. Á 50. mínútu kom hann boltanum framhjá Ingvari Jónssyni í marki Sandefjord. Nicklas Bendtner og Pål André Helland voru einnig á skotskónum hjá Rosenborg en Daninn óstýrláti skoraði einnig í 1. umferðinni á sunnudaginn.

Óttar Magnús Karlsson lagði upp mark í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Molde. Strákarnir hans Ole Gunnars Solskjær unnu þá 2-1 sigur á Lilleström.

Björn Bergmann Sigurðarson lék allan leikinn fyrir Molde en þeir Óttar byrjuðu saman í framlínu liðsins.

Aron Elís Þrándarson og Adam Örn Arnarson voru báðir í byrjunarliði Aalesund sem tapaði 1-3 fyrir Sarpsborg á heimavelli. Daníel Leó Grétarsson sat allan tímann á varamannabekknum.

Adam fór meiddur af velli á 29. mínútu. Aron Elís var svo tekinn út af á 58. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×