Innlent

Skíðasvæðinu á Dalvík lokað vegna dómsmáls

Anton Egilsson skrifar
Böggvisstaðafjall.
Böggvisstaðafjall. Vísir
Stjórn Skíðafélags Dalvíkur hefur tekið þá ákvörðun að loka skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli um óákveðin tíma frá og með morgundeginum. Ákvörðunin var tekin á stjórnarfundi í kvöld að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórn skíðafélagsins. 

Var ákvörðunin tekin í kjölfar dóms Héraðsdóms Norðurlands Eystra þar sem félaginu var gert að greiða skíðakonu rúmar 7,7 miljónir króna, auk vaxta og málskostnaðar í skaðabætur vegna skíðaóhapps.  

Fram kemur í tilkynningunni að næstu dagar verði notaðir til þess að fara yfir stöðuna og kanna meðal annars hvort rekstrargrundvöllur svæðisins sé brostinn.  Gert er ráð fyrir að í lok vikunnar liggi fyrir hvort svæðið verður opnað aftur í vetur.

Fór fram á rúma ellefu og hálfa milljón

Dómsmálið má rekja til skíðaslyss sem varð á skíðasvæði Böggvistaðafjalls í febrúar árið 2013. Þar slasaðist kona illa eftir að hafa rennt sér fram af mishæð sem myndast hafði við troðslu skíðasvæðisins. Lenti hún harkalega á hægri hliðinni og fékk mikið högg á hægri handlegg. Þá fékk hún skafsár í andlitið eftir að höfuð hennar slóst í jörðina.  

Varanleg örorka konunnar, sem gegndi stöðu varaformanns Skíðafélags Dalvíkur þegar slysið átti sér stað, var metin 20 prósent af völdum slyssins. Fór hún  fram á rúma ellefu og hálfa milljón króna í skaðabætur.

Dóm Héraðsdóms Norðurlands Eystra má lesa í heild sinni hér



Fleiri fréttir

Sjá meira


×