„Við í foreldrafélagi Waldorfskólans Sólstafa ætlum að efna til fatamarkaðar við skólann í Sóltúni 6 í Reykjavík í dag klukkan 10.30. Við viljum að föt séu nýtt sem best enda er skýr umhverfisstefna hjá skólanum,“ segir Nanna Björk Guðjónsdóttir blómasali.
Hún segir líka verða hægt að gæða sér á heitri grænmetissúpu og brauði, gegn vægu gjaldi og að páskaeggjaleit verði fyrir börnin á skólalóðinni.
„Ágóði af sölunni fer í húsgögn og fleira í nýju skólabygginguna,“ segir Nanna Björk. „Sólstafir er lítill skóli með lítið fjármagn. Hann hefur verið í skúrum fram að þessu en nú er verið að byggja yfir hann, eftir því sem efni leyfa.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl 2017
Safna fyrir innanstokksmunum
Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
