Fótbolti

Arnór með mark og stoðsendingu í fyrsta sigri Hammarby

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór skilaði marki og stoðsendingu.
Arnór skilaði marki og stoðsendingu. vísir/getty
Arnór Smárason skoraði jöfnunarmarkið og lagði upp sigurmarkið í 1-2 sigri Hammarby á AIK í 3. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Hammarby lenti undir á 14. mínútu en Arnór jafnaði metin fjórum mínútum síðar eftir sendingu frá Birki Má Sævarssyni. Arnór og Birkir Már spiluðu allan leikinn fyrir Hammarby líkt og Ögmundur Kristinsson.

Það var svo Pa Amat Dibba sem skoraði sigurmark Hammarby 11 mínútum fyrir leikslok eftir undirbúning Arnórs.

Með sigrinum, sem var sá fyrsti á tímabilinu, jafnaði Hammarby AIK að stigum. Bæði lið eru með fjögur stig eftir þrjá leiki.

Haukur Heiðar Hauksson lék ekki með AIK í dag.

Árni Vilhjálmsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Jönköpings Södra þegar liðið vann 1-3 útisigur á Kalmar.

Árni spilaði allan leikinn í fremstu víglínu Jönköpings og hann kom liðinu í 0-2 á 16. mínútu.

Tommy Thelin jók muninn í 0-3 á 31. mínútu en Kalmar minnkaði muninn í 1-3 tveimur mínútum fyrir hálfleik og það reyndust lokatölur leiksins.

Þetta var fyrsti sigur Jönköpings í deildinni á tímabilinu en liðið er með fjögur stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×