Fótbolti

Lið í Afríku spilar núna í búningi Skagamanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Fésbókarsíða stuðningsmanna ÍA
Það eru fleiri sem vilja vera gulir og glaðir en Skagamenn. Fótboltalið í Afríkuríkinu Síerra Leóne er nú svo heppið að fá að kynnast þeirri tilfinningu.

Knattspyrnufélag ÍA hefur á undanförnum árum sent afgangsboli frá Norðurálsmótinu til Síerra Leóne og til viðbótar hafa Skagamenn einnig gefið Síerra Leóne-mönnum keppnisbúninga sem iðkendur ÍA nota ekki lengur.

Gjafir Skagamanna til hjálparstarfs erlendis hafa komið sér vel en það er ekki oft sem fréttist af afdrifum búninganna.

Skagamenn fengu á dögunum sendar myndir af fótboltaliði í Síerra Leóne þar sem allir leikmenn liðsins voru komnir í gamla búninga Skagamanna.

„Það sem einum þykir gamalt rusl getur komið öðrum vel. Þessir strákar í Sierra Leone eru ánægðir með treyjurnar þó okkur þyki þeim hafa verið slitið,“ segir í fésbókarfærslu á síðu stuðningsmanna Skagamanna.

Skagafréttir vöktu líka athygli á þessum skemmtilegu fréttum frá Afríku sem birtist fyrst á samfélagsmiðlum Skagamanna. Nú verður spennandi að heyra hvernig gengur í sjálfum leikjunum. Skagamenn hafa nú skorað mörkin í meira en hálfa öld og hver veit nema að Skagabúningarnir boði líka lukku í nýrri álfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×