Innlent

Óvenju margir greindust með HIV hér á landi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Einnig varð talsverð aukning á staðfestum tilfellum af lifrarbólgu C í fyrra.
Einnig varð talsverð aukning á staðfestum tilfellum af lifrarbólgu C í fyrra. vísir/vilhelm
Óvenju margir greindust með HIV-sýkingu í fyrra, að mati landlæknis. Vísbendingar eru um að HIV-smit fari lengi dult hjá mörgum einstaklingum og telur hann það mikið áhyggjuefni.

Alls greindust 27 einstaklingar með HIV-sýkingu í fyrra sem er tvöfalt meira en á árunum 2014 og 2015. Af þeim sem greindust voru 20 karlmenn og sjö konur. Fjórtán voru með íslenskt ríkisfang en þrettán af erlendu bergi brotnir. Uppruni smits var rakinn til Íslands í þrettán tilvikum en annarra landa í fjórtán tilvikum.,.

Þá greindust óvenju margir, eða fjórir einstaklingar, með alnæmi sem er lokastig sjúkdómsins. Að auki voru þrír með merki um langt genginn sjúkdóm sem bendir til þess að smitið fari lengi dult hjá mörgum einstaklingum, að því er segir í farsóttaskýrslu landlæknis.

Af þeim sem greindust með HIV eru sjö samkynhneigðir og sjö gagnkynhneigðir og sex með sögu um sprautunotkun.

Einnig varð talsverð aukning á staðfestum tilfellum af lifrarbólgu C í fyrra en þá greindist sjúkdómurinn hjá 91 einstaklingi. Sú aukning kann að tengjast meðferðarátaki gegn lifrarbólgu sem hófst í ársbyrjun 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×