Fótbolti

Hannes hélt hreinu fyrir Randers en Elfar og Kjartan Henry eru í miklum vandræðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór er ekkert mikið í því að fá á sig mark þessa dagana.
Hannes Þór er ekkert mikið í því að fá á sig mark þessa dagana. vísir/getty
Lærisveinar Ólafs Kristjánssonar í Randers unnu sterkan útisigur á Aab, 2-0, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarumspilsins í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Marvin Pourié skoraði bæði mörkin fyrir Randers í Álaborg í kvöld en eins og tölurnar gefa til kynna hélt landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson markinu sínu hreinu.

Hannes er nú búinn að halda hreinu í fimm af síðustu af síðustu sex leikjum sem hann hefur spilað fyrir Randers en Hannes hefur verið að spila virkilega vel að undanförnu.

Randers og Aab mætast aftur á heimavelli Randers á miðvikudaginn í næstu viku en Ólafur og strákarnir hans eru í kjörstöðu að koma sér í undanúrslit umspilsins. Sæti í Evrópudeildinni er í boði.

Í fallumspilinu eru Elfar Freyr Helgason og Kjartan Henry Finnbogason og félagar þeirra í Horsens í miklum vandræðum eftir 3-0 tap fyrir Viborg á útivelli í fyrri leik liðanna. Það stefnir allt í að nýliðarnir kveðji deildina.

Elfar Freyr og Kjartan Henry spiluðu báðir allan leikinn en það var vegna þessa umspils sem Breiðablik gat ekki fengið miðvörðinn Elfar Frey heim í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×