Innlent

Sorglegt ef fjármunum sé eytt í úrelt lestakerfi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Borgarlína og fluglest eru úrelt þar sem sjálfakandi leigubílar munu taka yfir almenningssamgöngur með ógnarhraða á næstu árum. Þetta segir Frosti Sigurjónsson rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi alþingismaður í fréttum Stöðvar 2 og hvetur sveitarstjórnarmenn til að hugsa málin upp á nýtt. 

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen kynnti nýlega sjálfkeyrandi rafbílinn Sedric en margir telja að með slíkum sjálfrennireiðum hylli undir samgöngubyltingu, eins og lesa má um í skýrslu RethinkX. Með framþróun í rafhlöðum, sjóntækni og gervigreind taki slíkir vagnar yfir stóran hluta fólksflutninga.

Volkswagen kynnti Sedric á bílasýningu í Sviss fyrir tveimur mánuðum.Mynd/Volkswagen Group.
Rekstrarhagfræðingurinn Frosti Sigurjónsson segir nýjustu spár gera ráð fyrir að þetta gerist mjög hratt.  Nú líti út fyrir að sjálfakandi rafbílar verði komnir á göturnar árið 2020. 

„Og þeim muni fjölga með ógnarhraða eftir það, miklu hraðar en ný tækni venjulega. Þetta verði svokölluð umbylting bílgreinarinnar,” segir Frosti. 

Hann telur sjálfakandi leigubíla taka yfir almenningssamgöngur. Það verði ódýrara og þægilegra fyrir fólk að fá slíkan rafbíl beint heim að dyrum fremur en að nýta sér kerfi almenningsvagna í núverandi mynd með tilheyrandi biðstöðvum.

„Það þurfa að vera stoppistöðvar þar sem við geymum fólk, farþegana, á lager. Þeir þurfa að bíða í sjö mínútur eða tíu mínútur, - eða í hálftíma um helgar. Allt þetta er úrelt. Við eigum ekki að þurfa að hafa þessa framtíðarsýn. Hún er fortíðin.” 

Á sama hátt sé fluglest til Keflavíkur óþarfa sóun. Markmiðum um minni mengun, öryggi og góða þjónustu sé öllum hægt að ná með sjálfakandi rafknúnum leigubílum, að mati Frosta. 

„Það er bara framtíðin sem er að koma.

Og það væri mjög sorglegt að daginn sem við erum að opna léttlestakerfið, eða sporvagnakerfið, - búin að eyða í það 50 til 100 milljörðum, - þá komum við í þá opnun á sjálfakandi leigubíl því það ætlar enginn að nota léttlestina, eða léttvagnana. Það væri sorglegt.

Endurskoðum þetta. Það er það sem ég segi.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×