Íslenski boltinn

Bæði aðgerðin og söfnunin fyrir Samiru gengu mjög vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kvennalið Víkings Ólafsvíkur hefur staðið vel við bakið á Samiru Suleman.
Kvennalið Víkings Ólafsvíkur hefur staðið vel við bakið á Samiru Suleman. Mynd/Víkingur Ólafsvík
Samira Suleman, fyrirliði kvennaliðs Víkings Ólafsvíkur, gekkst undir aðgerð á sjúkrahúsinu á Akranesi í gær þar sem fjarlægt var æxli sem fannst í maga hennar í síðasta mánuði.

Forráðamenn knattspyrnufélagsins Víkings úr Ólafsvík settu inn tilkynningu á fésbókarsíðu sína þar sem fram kemur meðal annars að aðgerðin í gær hafi gengið vel og að læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina sé bjartsýnn á að Samira nái góðum bata.

„Þegar æxlið fannst og ljóst var að kostnaðarsöm læknismeðferð væri framundan hjá Samiru ákvað félagið að hefja söfnun til að létta undir með leikmanninum. Skemmst er frá því að segja að söfnunin gekk vonum framar," segir í tilkynningunni.

„Stjórn Víkings Ólafsvík og Samira sjálf vilja koma á framfæri miklu þakklæti til þeirra sem lögðu af hendi fé til söfnunarinnar og einnig fyrir þann hlýhug sem henni hefur verið sýndur. Við erum öll hrærð yfir viðbrögðunum."

„Framundan er endurhæfing og bataferli hjá Samiru en hún er mikil keppnismanneskja og efumst við ekki um að hún komi tvíefld til baka."

Það er áfram hægt að styrkja Samiru með því að leggja inn á styrktarreikninginn hennar en upplýsingar um hann má sjá hér fyrir neðan:

Reikningsnúmer: 0190-05-060550

Kennitala: 470579-0139








Fleiri fréttir

Sjá meira


×