Viðskipti innlent

Virðing kaupir allt hlutafé ALDA sjóða

Hörður Ægisson skrifar
Hannes Frímann Hrólfsson er forstjóri Virðingar en eftir kaupin á hlutafé ALDA sjóða verður samstæða félagsins með um 140 milljarða eignir í stýringu.
Hannes Frímann Hrólfsson er forstjóri Virðingar en eftir kaupin á hlutafé ALDA sjóða verður samstæða félagsins með um 140 milljarða eignir í stýringu.
Verðbréfafyrirtækið Virðing hefur fest kaup á öllu hlutafé ALDA sjóða hf. og munu hluthafar ALDA, sem eru stjórnendur félagsins, koma inn í hluthafahóp Virðingar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Virðingu.

Heildareignir í stýringu hjá samstæðu Virðingar eftir kaupin að ganga í gegn verða um 140 milljarðar króna. Kaupin eru meðal annars gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafunda félaganna og eftirlitsstofnana.

ALDA sjóðir verður áfram rekið sem sjálfstætt rekstrarfélag í fullri eigu Virðingar. Heildareignir ALDA í stýringu námu 36 milljörðum um síðustu áramót og hjá félaginu starfa fimm starfsmenn.

Í tilkynningunni er haft eftir Hannesi Frímanni Hrólfssyni, forstjóra Virðingar:

„Kaup Virðingar á ALDA sjóðum hf. er liður í að styrkja félagið enn frekar á sviði eignastýringar en hjá ALDA sjóðum hf. starfar eitt reynslumesta eignastýringateymi landsins. Árangur ALDA sjóða hf. hefur verið góður og vöxtur þess mikill á síðustu árum. Kaupin eru liður í metnaðarfullum markmiðum okkar í að verða leiðandi aðili á sviði eignastýringar á Íslandi.”

Þá segir Þórarinn Sveinsson, forstjóri ALDA og stærsti hluthafi félagsins, að við þessi viðskipti verði til eitt öflugasta eignastýringarfyrirtæki landsins sem mun skila sér í aukinni þjónustu við viðskiptavini beggja fyrirtækja. „ALDA mun starfa áfram í sama nafni sem dótturfélag Virðingar og áhersla áfram lögð á vönduð og fagleg vinnubrögð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×