Innlent

Síbrotamaður sem réðst á mann og rændi dæmdur í árs fangelsi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Steindór á langan sakaferil að baki.
Steindór á langan sakaferil að baki. Vísir/Pjetur
Þrjátíu og fimm ára karlmaður, Steindór Hreinn Veigarsson, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir að hafa ráðist á annan mann og rænt af honum síma og debetkorti í ágúst í fyrra. Honum var jafnframt gert að greiða hálfa milljón í miskabætur en maðurinn sem fyrir árásinni varð slasaðist talsvert.

Atvikið átti sér stað við Klapparstíg í Reykjavík í ágúst á síðasta ári þar sem Steindóri var gefið að sök að hafa veist að hinum manninum með ítrekuðum höggum og spörkum í höfuð og búk. Þá á Steindór að hafa skipað manninum að afhenda sér peninga en hann var aðeins með síma og debetkort á sér.

Afleiðingarnar voru þær að brotaþoli hlaut áverka víða um andlit og líkama; bólgur, mar og húðblæðingar, tannbrot, rifbrot og fleira.

Steindór játaði brot sitt. Hann á að baki talsverðan sakaferil en frá árinu 1999 hefur hann verið dæmdur alls tíu sinnum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hann var árið 2012 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir rán og fleira, og árið 2007 var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir líkamsárásir.

Hinn maðurinn fór fram á þrjár milljónir króna í miskabætur, en sem fyrr segir ákvað dómurinn 500 þúsund krónur. Þá var Steindóri gert að greiða 760 þúsund krónur í sakarkostnað og rúmar 700 þúsund krónur í lögmanns- og réttargæslukostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×