Fótbolti

Kjartan Henry skoraði og Horsens hélt sér uppi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan Henry í leiknum í dag.
Kjartan Henry í leiknum í dag. vísir/getty
Kjartan Henry Finnbogason skoraði annað mark Horsens í 1-3 útisigri á Vensyssel í umspili um áframhaldandi sæti í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Fyrri leikurinn endaði með markalausu jafntefli.

Tiago Leonco kom Vendsyssel yfir á 41. mínútu og staðan var því 1-0 í hálfleik.

Eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik jafnaði Mikkel Jespersen metin með laglegu marki og kom Horsens þar með í bílstjórasætið.

Vendsyssel bætti í sóknina eftir því sem leið á seinni hálfleikinn. Kjartan Henry sló hins vegar allar hugmyndir Vendsyssel um endurkomu út af borðinu þegar hann kom Horsens yfir fimm mínútum fyrir leikslok.

Horsens missti André Bjerregaard af velli með rautt spjald í uppbótartíma en þrátt fyrir liðsmuninn bættu gestirnir þriðja markinu við. Jonas Gemmer var þar á ferðinni. Lokatölur 1-3, Horsens í vil.

Elfar Freyr Helgason var í byrjunarliði Horsens en fór af velli þegar 19 mínútur voru til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×