Erlent

Klæðningin á Grenfell-turninum var bönnuð á Bretlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sviðinn Grenfell-turninnn í London eftir eldsvoðann sem braust út á aðfaranótt miðvikudags.
Sviðinn Grenfell-turninnn í London eftir eldsvoðann sem braust út á aðfaranótt miðvikudags. Vísir/EPA
Fjármálaráðherra Bretlands segir að klæðningin sem var utan á Grenfell-turninum og hefur verið kennt um útbreiðslu eldsins í honum í vikunni sé ólögleg í Bretlandi, að því er segir í frétt The Guardian.

Sakamálarannsókn á eldsvoðanum sem grandaði í það minnsta 58 manns er hafin. Hún mun meðal annars beinast að því hvort að byggingarreglugerðir hafi verið brotnar þegar háhýsið var gert upp með klæðningunni, að sögn Philips Hammond, fjármálaráðherra.

Hann sagði BBC að klæðningin væri bönnuð í Evrópu og Bandaríkjunum. Spurningin væri því hvort að bresk lög séu rétt hvað varðar leyfileg efni og hvort að farið hafi verið eftir þeim.

Stjórn Íhaldsflokksins hefur verið sökuð um að hunsa ábendingar dánardómstjóra um að endurskoða þyrfti byggingarreglugerðir um brunavarnir eftir eldsvoða í fjölbýlishúsi í London fyrir fjórum árum þar sem sex fórust.

Hammond hafnaði þeirri gagnrýni. Opinber rannsókn á eldsvoðanum nú myndi hins vegar leiða í ljós hvort að stjórnvöld hefðu brugðist rétt við ráðleggingum dánardómstjóra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×