„Það verður meira og minna ágætis veður í Reykjavík seinni partinn á morgun,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi. „Það er kannski mesti suddinn fyrripartinn en síðan dregur mögulega úr úrkomunni þó að það verði alltaf líkur á skúrum.“
Gestir Secret Solstice hátíðarinnar, sem hleypt var af stað í Laugardalnum í gær, mega því búast við sæmilegu veðri um helgina. Hrafn leggur áherslu á að veður verði milt en nokkuð skúrakennt og þá sérstaklega á þjóðhátíðardeginum á morgun þegar margir leggja eflaust leið sína á hvers kyns hátíðahöld utandyra.
Þá eru líkur á því að eitthvað rofi til á sunnudeginum.
„Það eru líka skúrir á sunnudaginn en hugsanlega gæti rofað eitthvað til um kvöldið,“ segir Hrafn.
Spáin fyrir helgina er því nokkuð þurrari en sú sem áætluð var fyrr í vikunni. Þeir sem ætla á vapp um helgina eru þó ekki hvattir til að skilja regnjakkana eftir heima fyrr en á sunnudaginn.
